NIK
Frá því ég fluttist til Danmerkur hef ég fylgst nokkuð náið með umræðu um tvítyngd börn og stöðu þeirra í skólakerfinu. Í nýlegri frétt í Morgunblaðinu kemur fram að íslenskar rannsóknir sýni að tvítyngd börn standi eintyngdum börnum að baki í skólakerfinu. Svipaða sögu er að segja frá Danmörku þar sem nýlegar rannsóknir benda til þess að börn af erlendum uppruna bæði standa ver að vígi námslega og fái á stundum ekki aðstoð við hæfi við komuna til landsins.
NIK (Ny I København) var kynnt til sögunnar árið 2017 sem leið til að sporna við þessari þróun með því að endurskilgreina þarfir þessara barna og bjóða upp á úrræði byggð á einstaklingsmiðaðri nálgun.
Á heimasíðu NIK er höfuðáherslan sögð vera að koma nemendum sem allra fyrst úr móttökubekk og inn í almenna bekki. Sérstök teymi fagfólks (þ.m.t. kennara) skoði og meti bakgrunn barnsins þar sem fleiri þættir en dönskukunnátta eru skoðaðir. Almennur málskilningur barns á móðurmáli þess vegi t.a.m. þyngra en áður og þannig velji teymið úrræði sem talið er henta barninu. Þá kemur fram í skilgreiningu á NIK að lögð sé áhersla á að nemendur á yngsta stigi grunnskólans hefji skólagöngu sína í miklu ríkari mæli án viðkomu í móttökubekk. Þannig færist áherslan einnig á mikilvægi félagslegra tengsla um leið og barnið stígur fæti inn í grunnskólann.
Undanfarna mánuði hef ég, ásamt því að kenna íslensku í gegnum Kötlu og í Íslenskuskólanum í Jónshúsi, unnið við að kenna börnum af erlendum uppruna dönsku í skólanum á Íslandsbryggju. Skólinn á Íslandsbryggju er ekki með móttökubekki fyrir börn af erlendum uppruna og tekur því á móti börnum sem metin hafa verið reiðubúin til að byrja í skóla án viðkomu í móttökubekk. Í því starfi er ég því allt í senn dönskukennari, stuðningur inni í bekk og tengiliður á milli foreldra, kennara og stjórnenda. Skólanum er úthlutað tímum sem ég svo nýti eftir þörfum. Kosturinn við þetta fyrirkomulag er fókusinn á barnið, nemandann. Ég sem stundakennari í þessu verkefni er ekki bundin í öðrum verkefnum og get því sniðið kennsluna að þörfum barnsins. Ef styrkleikar barnsins liggja t.d. í stærðfræði eða ensku þá situr barnið þá tíma með bekkjarfélögum sínum, mögulega með smá stuðningi til að byrja með. Þannig upplifir barnið sig áfram á jafningjagrundvelli og þannig byggjum við tengslabrú barnsins við bekkjarfélaga sína mun hraðar en ella. Ég hef séð það sjálf og upplifað hversu vel getur tekist til. Þau sem ég hef fylgt hafa öll náð að tengjast sínum bekkjarfélögum þó þau tali ekki dönsku þegar þau byrja. Þessi yngstu með látbragði og þau eldri með hrafli á dönsku til að byrja með sem síðar eflist og styrkist eftir því sem líður á.
Ég fagna þessari stefnubreytingu í Kaupmannahöfn enda sannfærð um að með því að opna strax á félagsleg tengsl samhliða öflugri tungumálakennslu, þar sem nemendur eru fullir eftirvæntingar og spenntir að læra hverjir af öðrum, sé lagður grunnur að jarðvegi sem skapar jákvæða reynslu. Og jákvæð reynsla í nýju samfélagi hlýtur að vera forsenda þess að aðlögun takist sem skyldi.