PISA og skólamenning

PISA og skólamenning

Mögulega lengsta færsla sem ég hef skrifað.

Birtist upphaflega á FB síðunni minni.

Ef þið hafið áhuga á mínum vangaveltum sem byggðar eru á samanburði og persónulegri reynslu frá Danmörku, þar sem niðurstöður sýna að dönsk skólabörn standa sig betur í lesskilningi samanborið við íslensk börn - en þó verr en þau sænsku, sem fer auðvitað agalega í taugarnar á Dönum 😉, dragið þá djúpt andann og lesið áfram 🙂

Ég hef verið hugsi eftir enn eina PISA könnunina þar sem íslensk grunnskólabörn koma illa út í lesskilningshluta PISA, þrátt fyrir gríðarlega vinnu af hendi stjórnvalda og skólafólks til að efla lestrarfærni íslenskra grunnskólabarna. Ég er ekki sérfræðingur í lestri eða lestrarkennslu en tel mig þekkja ansi vel til í skólamálum svona almennt. Mig langaði því að benda á nokkra hluti sem eru öðruvísi hér þar sem ég bý og starfa og þar sem börnin mín ganga í skóla.

Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að laga sig að dönsku skólakerfi. Sér í lagi þegar kona kemur til landsins með 15 ára reynslu af íslenskum grunnskóla á bakinu og þykist vita nákvæmlega hvernig þetta allt á að vera. Þessi ummæli formanns KÍ, Ragnars Þórs Péturssonar, finnast mér því mjög athyglisverð þar sem mér þykja þau ríma ágætlega við mína reynslu af íslenska skólakerfinu vs. það danska.

„Svo virðist sem í ís­lensku mennta­kerfi séu að ein­hverju leyti lagðar aðrar áhersl­ur en tíðkast víða ann­ars staðar. Það virðist hafa það í för með sér að nem­end­ur fást oft við frek­ar yf­ir­borðskennda hæfni í stað dýpri.“

Varúð aftur, þetta er langt og alls ekki tæmandi. Hugrenningar þessar eru líka eingöngu byggðar á reynslu minni frá skóla barnanna minna og vinnustað mínum. Þetta eru engar töfralausnir enda veit ég ekki hvort þessi atriði séu þau sem skipta höfuðmáli þegar kemur að lestrarfærni og lesskilningi en skólamenning er mögulega eitthvað sem er vert að skoða nánar.

Hvernig stundum við skóla á Íslandi samanborið við önnur lönd?

Hér eru nokkur atriði:

1. Skólinn í Danmörku er sá lengsti í Evrópu, 200 skóladagar. Skóladagurinn er frá 8 - 13:30 í yngstu bekkjunum, 8 - 14:15 á miðstigi og frá 8 - 15:00 flesta daga á elsta stigi. Valgreinar eru inni í þessum tímum.

2. Hér í Kaupmannahöfn eru bekkirnir stórir. Það eru að meðaltali 25-26 börn í bekk, líka á yngsta stigi. Það fylgir þó pædagog hverjum bekk á yngsta stigi sem sinnir ákv. verkefnum en ekki þannig að það séu tveir inni í bekk. Mér finnst Danir þó ekki komnir eins langt og við í hugmyndafræðinni um einstaklingsmiðað nám en börn með alvarlegar greiningar fara oftar í sérskóla og fötluð börn stunda ekki nám í almennum skólum. Ég hef ekki enn séð stuðningsfulltrúa inni í bekk.

3. Í 1. bekk (0.bekkur á dönsku, børnehaveklassen) er höfuðáherslan á að kenna börnum að vera í skóla. Það er ekki fyrr en börn koma í 2. bekk (1.bekkur á dönsku) að gert sé ráð fyrir að börn kunni stafina og geti skrifað þá og lesið. Hljóðaðferð er ekki kennd þar sem ég hef séð til heldur lesa börn sögur þar sem sömu orðin eru endurtekin, aftur og aftur, með kennara og foreldrum (þegar þau geta) og nota barnaskrift. Mér fannst eins og Tjörvi væri bara að læra að lesa utan að. En hann kann að lesa og ég hef ekki hugmynd um það hvernig hann lærði það. Mér finnst hugmyndin um “børnhaveklasse” einhver sú allra besta í öllu danska skólakerfinu. Foreldrar hafa val um að seinka skólagöngu barna sinna um eitt ár. Áður fyrr var það algjörlega á valdi foreldra hvort barnið þeirra byrjaði seinna í skóla en nú er pressan orðin meiri frá leikskólunum um að senda börnin í skóla 6 ára og því færri börn sem byrja í skóla 7 ára.

4. Samtalið: Það fer ótrúlega mikill tími í að tala við börn. Alveg rooosalega mikill tími - finnst mér. Kennari í 2. bekk getur hæglega staðið og talað við hóp nemenda í 40 mínútur um ljóðaverkefni. Á meðan iða öll börnin á stólunum en fá líka að sama skapi mikið rými til að tjá sig munnlega.

5.Munnleg tjáning og frumkvæði: Öll börn eru hvött til tjáningar og færni þeirra er að miklu leyti metin af því hvernig og hversu oft þau tjá sig munnlega. Þetta lærist frá því þau byrja í skóla. Þau læra að rétta upp hönd til að svara spurningum og spyrja spurninga. Það gengur misvel en alltaf er hamrað á þessu við blessuð börnin. “Ræk hånden op hvis du vil sige noget!” Þau halda stöðugt kynningar á verkefnunum sínum og þessi elstu þurfa að fara í munnleg samræmd próf við útskrift úr grunnskóla, stundum líka í stærðfræði. Sonur minni var nýbyrjaður í skóla þegar hann hélt nokkurra mínútna fyrirlestur um dýr að eigin vali. Hann valdi leðurblöku. Hann kunni hvorki að skrifa né lesa. Að lokum fengu hin börnin að spyrja hann spurninga, um leðurblökur, sem hann svaraði ! Þessi krafa um frumkvæði sem mælikvarða á hæfni reynist hinsvegar sumum börnum erfið.

6. Námsefni: Kennarar hafa frjálst val um efnistök einstakra námsgreina. Aðgangur að námsefni er mjög góður og gríðarlega mikið til af flottu námsefni enda mun stærri markaður. Ráðuneytið setur vissulega ákveðnar línur um hvað skuli kennt en kennarar hafa mjög mikið frjálsræði um efnistök og velja hæfniviðmið út frá því. Ég upplifi líka hægari yfirferð. Mér finnst eins og kennarar gefi sér meiri tíma, kafi dýpra í efnið. Mögulega af því að þeim er meira í sjálfsvald sett hvað þeir kenna og hvenær, og það er ekki þessi krafa um einkunnir í lok hvers skólaárs. Ég man allavege eftir því að finnast ég stöðugt þurfa að ná að klára eitthvað til að ná að byrja á því næsta. Á mínum vinnustað halda kennarar oft bara áfram þar sem frá var horfið frá árinu á undan!

7. Námsmat: Engar einkunnir eru gefnar fyrr en 9. bekk (8.bekkur á dönsku) og engin próf eru tekin önnur en samræd próf á nokkura ára fresti (dan og stæ.) Reyndar er verið að afnema eitthvað af þessum samræmdu prófum núna vegna mikillar andstöðu bæði foreldra og kennara. Hef ekki sett mig nægilega vel inn í það til að útskýra nánar.

8. "Lufter”: Vegna þess hve skóladagurinn er langur eru börn stöðugt í "lufter". Börnin fá þá að skjótast út og viðra sig á milli kennslustunda eða í miðri kennslustund. Það er algjör tilviljun hvenær kennarar taka "lufter" og það eru því næstum því alltaf börn úti að leika sér. Mér finnst þetta mjög kaótískt en frjáls leikur er eitt af þessum menningarfyrirbærum sem liggur rótgróið í dönsku þjóðarsálinni.

9. Sjálfsábyrgð: Ætli þetta sé ekki eitt af því sem mér þykir hvað áhugaverðast við danska skólann. Hér eru allir nemendur á eigin ábyrgð - eitthvað sem einnig er rótgróið í danska menningu. Strax á yngsta stigi er lögð áhersla á að börnin sjálf beri ábyrgð á náminu sínu og þekki reglurnar. Væntingar kennara til sjálfsábyrgðar aukast svo bara þegar nemendur koma á unglingastig.

10. Ár hvert er birtur listi yfir “bestu” skólana. Listinn er byggður á framfaratölum einstakra skóla. Það má vissulega spyrja sig hvaða tilgangi slík birting þjónar og hvaða hagsmunum.

Hér er auðvitað stiklað á stóru og vissulega eru frávik. Mín reynsla endurspeglar heldur ekkert endilega reynslu annarra. Skólarnir eru margir og sjálfstæði þeirra er Dönum mikilvægt enda töluvert mikið af einkaskólum og skólum sem reknir eru sem sjálfseignastofnanir.

Jórunn Einarsdóttir