Hrekkjavökuspil, yndislestur og hvatningarverðlaun

Hrekkjavaka - Lestrarspil

Fyrrum samstarfskonur mínar í Grunnskóla Vestmannaeyja, þær Snjólaug og Unnur, hafa unnið ótrúlegt starf í að þróa nýtt og spennandi námsefni fyrir nemendur á yngri stigum grunnskólans. Námsefnið kalla þær Út fyrir bókina en hægt er að nálgast allt námsefnið án endurgjalds á heimasíðu þeirra.

Lestrarspil eru skemmtileg leið til að brjóta upp lestrarþjálfunina. Setningarnar eru stuttar en einnig vel til þess fallnar að þjálfa séríslensku málhljóðin. Ég hef notað spilin fyrir börn á öllum aldri í minni kennslu og þau hitta alltaf í mark. Að þessu sinni býð ég upp á hrekkjavökuspil en hægt er að prenta spilið út (spilið er á A-4 formi) með því að smella hér.

Lestur fyrir lengra komna - Yndislestur

Mig langar einnig að benda á eina af mörgum virkilega góðum lestrarbókum Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur: Varúð - Hér býr vampíra.

Í þessari bók, sem ætluð er nemendum í 5. - 7. bekk, kynnumst við Mörtu og Maríusi sem týna kettinum Hvæsa. Hvæsi stingur af inn í draugalegasta húsið í götunni og Marta og Maríus þurfa að fara inn í húsið til að sækja hann. Þau vita hins vegar ekki hvað leynist á bakvið luktar dyrnar.

Tilnefnd til Hvatningaverðlauna FKAÍDK

Konur eru konum bestar

Ég tilheyri ansi mögnuðum félagskap hér í Danmörku sem hefur það að markmiði að skapa öflugt tengslanet kvenna, sameina konur í atvinnulífinu og um leið auka sýnileika og tækifæri þeirra.

Í ár er ég, ásamt ansi mörgum geggjuðum kanónum, tilnefnd til hvatningarverðlauna félagsins; Félags kvenna í atvinnulífinu í Danmörku.

Mér finnst ægilega gaman að vera nefnd á nafn í þessu samhengi og tlnefningin er svo sannarlega hvatning til að gera betur og halda áfram að þróa litla sprotann minn Kötlu - Kennslu og Ráðgjöf.

Jórunn Einarsdóttir