Fyrsta fréttabréf Kötlu

Í fyrsta fréttabréfi Kötlu er Smábókaskápurinn kynntur til sögunnar og sagt frá samstarfi fyrirtækisins við Öryggismiðstöðina.

Lesefni fyrir byrjendur

Í síðustu færslu fjallaði ég örstutt um mikilvægi læsis til að viðhalda orðaforða í upprunatungumáli. Með færslunni fylgdi lestrarhestur sem er mjög sniðugt verkfæri til að halda utan um lesturinn og gera árangurinn sýnilegan. Ég nota límmiða sem umbun fyrir mína nemendur og þá gildir einu hvort bókin er 6 bls. eða 150 bls., myndasögubók eða skáldsaga. Öll börn fá límmiða þegar lestri bókar er lokið.

Ég lofaði tillögum að vönduðu námsefni og í þessari færslu ætla ég að setja inn hlekk á virkilega góðar, gagnvirkar lestrarbækur fyrir börn á aldrinum 6- 9 ára.

Smábókaskápurinn er rafrænn bókaskápur þar sem bæði er hægt að lesa textann og hlusta samtímis. Slíkt þjálfar ekki bara lestrarfærni heldur einnig framburð. Á hverri síðu er síðan að finna verkefni þar sem svara þarf spurningum úr textanum og leysa ýmsar þrautir. Athugið að bókunum er raðað eftir þyngd.

Fyrirtækjaþjónusta

Í samvinnu við Öryggismiðstöðina er ég að þróa og hanna rafrænt íslenskunámskeið fyrir erlent starfsfólk fyrirtækisins. Lagt er upp með að hægt sé að færa námskeiðið yfir í námsumsjónarkerfi fyrirtækisins og lögð er áhersla á að þjálfa alla þætti tungumálanáms: lestur, hlustun, ritun og tal.

Fyrirtækjaþjónusta Kötlu býður upp á sérhæfða ráðgjöf um tilhögun náms og kennslu í íslensku fyrir starfsfólk fyrirtækja; hvort sem um er að ræða sérhönnuð námskeið fyrir námsumsjónarkerfi, einstaklingskennslu eða fræðslufyrirlestra.

Jórunn Einarsdóttir