Get ég markaðsvætt og selt kennslu?
Get ég markaðsvætt og selt kennslu?
Aldrei hefði mig órað fyrir því að ég myndi á einhverjum tímapunkti kenna börnum og fullorðnum í gegnum tölvuskjá.
Ég hélt lengi vel að það væri ekki hægt að kenna í gegnum skjá og var mjög efins til að byrja með. Eftir töluverða íhugun ákvað ég þó að láta slag standa. Ég þurfti reyndar aðeins að líta inn á við og takast á við eitt og annað sem ég hafði talið mér trú um að væri ómögulegt. Ég var t.d. sannfærð um að erfitt yrði að mynda góð tengsl við skjólstæðingana sem annars eru forsenda góðra samskipta og óttaðist svolítið þetta tæknibras. Ég sá ekki fyrir mér hvernig námsefni ég gæti notað eða hvernig nemendur myndu vinna verkefnin. Ótal spurningar vöknuðu og ég sá mig nauðbeygða til að endurskoða fyrri kennsluhætti mína og horfast í augu við erfiðustu spurninguna: Get ég markaðsvætt og selt kennslu?
Ég komst að þeirri niðurstöðu að í samfélagi ört vaxandi tæknibreytinga er nauðsynlegt að taka mið af þeirri framþróun sem er að eiga sér stað á öllum sviðum mannlegra samskipta og ég er sannfærð um að fjarkennsla gæti leyst mörg - ekki öll - en mörg af þeim vandamálum sem upp geta komið, sér í lagi þar sem þjónusta getur verið af skornum skammti. Íslendingar búsettir erlendis hafa t.d. ekki allir jafnan aðgang að móðurmálskennslu fyrir börn sín og eftir að hafa kennt við móðurmálsskólann í Kaupmannahöfn í þrjú ár langaði mig að bæta úr þessari stöðu. Ég stofnaði því Kötlu - Kennslu og Ráðgjöf þar sem ég hef einbeitt mér að því bjóða upp á íslenskukennslu fyrir fjöltyngd börn í gegnum fjarfundabúnað.
Ég nota hugbúnað Köru Connect í minni kennslu og það hefur að mestu gengið vel. Auðvitað eru stundum hnökrar í kerfinu en það hefur aldrei staðið á aðstoð frá Köru og viðmótið ávallt verið gott.